18.11.2006 | 12:23
Hvað vil ég?
Í síðasta pistli lofaði ég að skrifa um hvað ég vildi. Ég setti líka fram þá spurningu, af hverju að velja mig frekar en aðra frambjóðendur í forvalinu? Það er í raun ekki mitt að segja bendi ég kjósendum á að skoða allan þann fjölda heimasíðna sem frambjóðendur eru með, þær eru hver annarri betri og þessi hópur frambjóðenda virðist vera ansi fjölbreyttur og spennandi. Öll þau mikilvægu málefni sem efst er í huga hvers og eins eru málefni sem skilið eiga umfjöllun og brautargengi. En hvað vil ég?
Ég vil réttlátara þjóðfélag þar sem misskipting auðs er jafnari og fátækt þar með útrýmt. Þetta er hægt með ráttlátara skattkerfi.
Ég vil betra starfsumhverfi fyrir vinnandi fólk í öllum stéttum þar sem fjölskyldufólk getur mætt kröfum nútímans um að aðlaga fjölskyldu og vinnu. Allir skólar eiga að vera gjaldfrjálsir, sem og matur og frístundaheimili í grunnskólum. Ég vil (og vinn að því að) útrýma kynbundum launamun. Ég er orðinn hundleiður á kurteysislegu hjali um þessi mál og vil aðgerðir. Gerum stjórnendur ábyrga. Við skulum ekki verðlauna þau fyrirtæki sem standa sig vel í þessum málefnum enda eru þau bara að fara eftir lögum. Sektum frekar hina, refsum þeim á allan þann hátt sem mögulegt er. Afnemum launaleyndina.
Ég vil setja áherslu á að kynbundnu ofbeldi verði útrýmt. Ég vil breyta lögum um nálgunarbann, ég vil gera lögregluna betur í stakk búna að taka við þessum vanda. Ég vil breyta viðhorfum fólks í þessum efnum, m.a. með að taka fórnarlambið úr forgrunni í umræðunni og setja ofbeldismanninn í frontinn. Það er fyrst og síðast hann sem lemur, nauðgar og kúgar og fórnarlambið á ALDREI sök á ofbeldinu.
Ég vil að börn mín fái að njóta náttúrunnar eins og ég hef gert hingað til, hreinni og ósnortinni. Helst hefði ég viljað loka öllum álverum en það er kannski fulllangt gengið. En ekki eitt í viðbót, hversu lítið það kann að verða. Við berum ábyrgð á þvílíkri eyðslu lands í löndum eins og Mexíkó vegna súrálsins sem framleitt er þar fyrir verksmiðjur okkar. Nú segjum við stopp.
Ég vil að herinn hverfi allur og bann við heræfingum hér við land. Grindavíkurstöðin er eitt það ljótasta við herinn enda er aðalhlutverk hennar að send boð til kjarnorkaukafbáta í Norður-Atlantshafi um að þeir megi nota vopn sín. Ísland úr Nató - Herinn burt.
Ég vil að öryrkjum og öldruðum sé sýnd miklu meiri virðingu í stjórnkerfinu og við leyfum fólki að að hafa tekjur áður en örorku- eða ellilífeyrir er skertur. Það þarf miklu meira fjármagn til fatlaðra í þjóðfélaginu. Mörg sambýli og vinnustaðir eru varla mönnum bjóðandi vegna lítils viðhalds á húseignum og innbúi. Oft eru of fá stöðugildi á sambýlum vegna sparnaðar. Oft búa fatlaðir í kolröngum aðstæðum fyrir það. Hver og einn á að fá að velja sína búsetu eða að foreldrar og fagaðilar ráði til um þessi mál. Ekki bara hola fólki niður hér og þar því það hentar fjárlagastefnu stofnanna.
Það er margt meira sem ég vil og tel nauðsynlegt að breyta í þessu þjóðfélagi en ég læt staðar numið í bili.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.